UMFÍ vonar að þú upplifir frábært Landsmót. Hér fyrir neðan er að finna svör við spurningum sem þú gætir verið að velta fyrir þér. Ef þú finnur ekki svar við þinni spurningu er velkomið að slá á þráðinn til okkar í síma 568 2929 eða senda okkur póst á netfangið umfi@umfi.is

 

Svör við spurningum

Armband

Allir þátttakendur á Landsmótinu fá armband sem þeir þurfa að hafa alla mótsdagana.

Þegar þú kemur á Sauðárkrók þá mælum við með því að það fyrsta sem þú gerir sé að koma við í þjónustumiðstöð Landsmótsins og ná í armbandið þitt. Þjónustumiðstöðin er í Árskóla.

Ef armbandið slitnar á meðan mótinu stendur þá kemur þú með það í þjónustumiðstöðina og færð nýtt armband afhent.

Börn

Ert þú að velta því fyrir þér hvort börnin geti komið með á Landsmótið?

Landsmótið er íþróttaveisla fyrir fullorðna og þess vegna þarf að vera 18 ára á árinu til þess að geta tekið þátt í íþróttagreinum mótsins.

Það eru samt sem áður fullt af viðburðum og afþreyingu sem eru ætluð börnum og því hvetjum við þig til þess að taka börnin með og upplifa íþróttaveisluna saman.

Okkur grunar t.d. að börnin muni hafa mjög gaman af þrautabrautinni sem verður á svæðinu.  Börn í fylgd fullorðinna á mótinu greiða að sjálfsögðu ekkert þátttökugjald. Ekki er gert ráð fyrir því að börn og ungmenni yngri en 18 ára séu á eigin vegum á Landsmótinu.

Bílar og bílastæði

Til þess að skapa sanna landsmótsstemmingu þá verður ákveðnum götum lokað í kringum nokkra viðburði.

Við mælum með því að bílum sé lagt á tjaldsvæðunum þegar komið er á Krókinn og þeir fái að hvíla sig þar fram að brottför. Það er nánast allt í göngufæri á Króknum og tjaldsvæðin eru á svokölluðum Nöfum, beint fyrir ofan helstu keppnissvæðið. 

Þægilegasta akstursleiðin á tjaldsvæðið er sunnan við Sauðárkrókskirkju, upp Kirkjuklauf.

Dýr

Sumir geta ekki verið án dýranna sinna.  Við hvetjum hinsvegar ekki bændur til að taka með bústofna sína en minni spámenn eru velkomnir. Við hvetjum t.d. hundaeigendur til þess að hafa þá ætíð í bandi. Hundar eru ekki leyfðir á aðalíþróttasvæði Sauðárkróks.

Ferðatilhögun - hvernig kemst þú til Sauðárkróks?

Það er einfalt mál að keyra til Sauðárkróks en það er líka hægt að taka strætó.

Það eru 290 km. frá Reykjavík, 120 km. frá Akureyri, 422  km. frá Ísafirði, 323 km. frá Egilsstöðum, 189 km. frá Húsavík, 479 km. frá Selfossi og 331 km. frá Höfn í Hornafirði.

Gisting

Við hvetjum Landsmótsgesti til þess að gista á tjaldsvæðum bæjarins sem hafa öll verið tekin frá fyrir Landsmótið.

Þar að auki eru gistiheimili og hótel á svæðinu.  Best er að fara á www.visitskagafjordur.is til að finna gistingu á svæðinu.

Götupartý

Landsmótið verður opnað með formlegum hætti með götuveislu þar sem allir leggja sitt af mörkum við að skapa skemmtilega stemmingu.

Veitingaaðilar láta ljós sitt skína, tónlistarfólk og skemmtikraftar mæta til leiks og allir verða í góðu skapi.

Gæsla

Við verðum með gæslu á svæðinu og gerum okkar til að tryggja öryggi þátttakenda.

Hraðbanki

Það er hraðbanki inni í Arion banka (opinn á dagtíma) og í Skagfirðingabúð er hraðbanki sem er opinn allan sólarhringinn. Einnig er hraðbanki í Landsbankanum sem er opinn allan sólarhringinn.

Heilbrigðisþjónusta

Gott aðgengi er að heilbrigðisstarfsfólki á Sauðárkróki. Þar er gott sjúkrahús með frábæru starfsfólki. Ef slys verður skal hringja í 112.

Matur og veitingar

Veitingastaðir og sölutjöld verða um allan bæ.

Góðar matvöruverslanir eru einnig á Sauðárkróki þannig að þá má alltaf fá eitthvað gott til að skella á grillið.

Mótshaldarar

Landsmótið er samstarfsverkefni UMFÍ, UMSS og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. UMFÍ er landssamband ungmennafélaga. Um 350 ungmenna- og íþróttafélög um allt lands eru aðildarfélög UMFÍ.

UMSS, Ungmennasamband Skagafjarðar er íþróttahérað og er einn af sambandsaðilum UMFÍ. Innan UMSS eru 10 aðildarfélög.

Sveitarfélagið Skagafjörður er með um 4.200 íbúa.

Mótslok

Landsmótinu lýkur formlega sunnudaginn 15. júlí. kl. 15:00.

Óskilamunir

Óskilamunum verður safnað saman í þjónustumiðstöð Landsmótsins. Þar verða þeir fram til 15. júlí.  Eftir þann tíma verða þeir fluttir á skrifstofu UMSS, Víðigrund 5, sími 453 5460. Netfang umss@umss.is

Ruslafötur

Það verður fjöldi ruslatunna um allt landsmótssvæðið. Hjálpaðu okkur að halda svæðinu snyrtilegu og henda rusli í tunnurnar.

Salerni

Salerni eru á tjaldsvæðinu. Þau eru einnig að finna í íþróttamannvirkjum og á keppnisstöðum mótsins. Svo eru þau að sjálfsögðu á veitingastöðum og í verslunum um allan bæ.

Skráning

Skráning hófst 1. apríl sl.

Smelltu hér til þess að skrá þig. 

Athugaðu að það borgar sig að skrá sig tímanlega. Bæði hækkar verðið eftir því sem nær dregur og svo er takmarkaður fjöldi þátttakenda í sumar íþróttagreinar.

Þátttökugjald er 4.900 kr. 

Skagafjörður

Í Skagafirði búa um 4.200 manns.  Sauðárkrókur er langstærsti og fjölmennasti byggðakjarninn.  Fjölmargar upplýsingar um Skagafjörð má finna á www.visitskagafjordur.is

Sturtur

Það eru sundlaugar á Sauðárkróki, Hofsósi, Hólum, Varmahlíð og Steinsstöðum. Þar er gott að slaka á og njóta og fara í góða heita sturtu.

Sjálfboðaliðar

Það eru ótrúlega margar hendur sem koma að undirbúningi og framkvæmd Landsmótsins. Það eru miklar líkur á því að það verði sjálfboðaliði sem þú mætir í hinum ýmsu hlutverkum á mótinu.

Sendu þeim bros og þakklæti fyrir að leggja sitt af mörkum við að gera Landsmótið þitt ánægjulega upplifun.

Slys og meiðsli

Gott aðgengi er að heilbrigðisstarfsfólki á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki. Ef meiðsli eru alvarleg skal hringja í 112.

Tjaldsvæði

Tjaldsvæði fyrir gesti Landsmótsins er staðsett uppi á Nöfunum fyrir ofan frjálsíþróttavöllinn. Á tjaldsvæðinu er aðgengi að rafmagni, salernum og rennandi vatni.

Greitt er fyrir hverja einingu óháð því hversu margir einstaklingar eru í hverri einingu.

   

Fullt verð

Verð með afslætti/armbandi   

Þrjár nætur 10.000kr.

7.500kr.              

Tvær nætur 6.250kr.

5.000kr.

Ein nótt 4.250kr.

3.500kr.

                           

Rafmagn er innifalið í verðinu.

Smelltu hér til að opna hlekk fyrir sölu á tjaldsvæðinu. 

Tónleikar

Eftir að hafa stundað íþróttir allan daginn er frábært tækifæri að taka fram dansskóna og skemmta sér á kvöldin með gömlum og nýjum vinum.

Götupartí og tónlistarveisla verður í Aðalgötunni á föstudagskvöldið þar sem Auddi og Steindi ráða ríkjum. 

Hljómsveitin Albatros og Sverrir Bergmann halda upp fjörinu með fjölda tónlistarmanna.

Það verður skemmtikvöld með Geirmundi og síðan Pallaball á laugardagskvöldið í íþróttahúsinu.  

Þátttakendur á Landsmótinu fá afslátt á þessa viðburði.

Tryggingar

Vakin er athygli á því að allir þátttakendur á Landsmótinu eru á eigin ábyrgð.

Nú er því rétti tíminn til að leita að tryggingaplagginu og fara yfir skilmálana til að tryggja að allt sé eins og það á að vera fyrir Landsmótið.

Veðrið

Við fylgjumst náið með veðurspánni. Ef ástæða þykir til getum við þurft að færa til viðburði eða breyta tímasetningum á þeim.

Mundu að pakka í samráði við veðurspána.

Við höfum hins vegar pantað gott veður alla Landsmótsdagana svo nú er bara að bíða og vona.

Viðburðir

Það er gífurlegur fjöldi viðburða sem hægt er að velja á Landsmótinu. Þessa viðburði má alla sjá í dagskrá mótsins.

Viðburðunum er skipt í fjóra flokka; kepptu, láttu vaða, leiktu þér og skemmtu þér.

Til þess að geta tekið þátt í keppni og láttu vaða viðburðum þarf að vera með þátttökuarmband á Landsmótinu.

Þátttakendur

Allir sem eru 18 ára á árinu geta skráð sig á Landsmótið.

Þú þarft ekki að vera í íþrótta- eða ungmennafélagi til þess að geta tekið þátt, allir geta verið með.

Þjónustumiðstöð

Þjónustumiðstöð Landsmótsins verður staðsett í Árskóla og er opin á eftirfarandi tímum:

Miðvikudagur kl. 17:00-23:00

Fimmtudagur kl. 15:00 – 23:00

Föstudagur kl. 08:00 – 17:00

Laugardagur kl. 07:00 – 17:00

Sunnudagur  kl. 09:00 – 15:00