Á Landsmótinu stendur mótsgestum til boða allskonar viðburðir, sýningar, skemmtanir og afþreying. Þátttakendur fá auk þess afslátt á ýmsum stöðum, t.d. í sund, á söfn, á ball o.fl. Í dagskrá mótsins eru þessir viðburðir merktir með bláum lit til aðgreiningar. Hér fyrir neðan er hægt að sjá brot af þeim fjölmörgu uppákomum sem verða á Landsmótinu.  

 

Skemmtun og stemming

Fyrirlestrar

Í hádeginu alla mótsdagana verða örfyrirlestrar um áhugaverð málefni. Hver fyrirlestur er aðeins 15 mín að lengd. Tveir fyrirlestrar verða á dag og því fyrirtak að hoppa inn á þá og læra eitthvað alveg nýtt – nú eða dýpka skilning sinn.

 

HM í fótbolta

Úrslitaleikurinn á stórum skjá. 

 

Götupartí

Það er alltaf líf og fjör á föstudagskvöldum á Króknum. Engin undantekning verður á því á Landsmótinu. Heimamenn ætla að slá upp alvöru grill- og tónlistarveislu í miðbænum.  Vertar bæjarins sjáum um matinn bæði úti og inni. Eftir mat stíga landsfrægir tónlistarmenn og skemmtikraftar á stokk. Króksarinn Auðunn Blöndal og vinur hans Steindi halda fjörinu uppi og kynna skemmtikraftana til leiks.

 

Hópreið hestamanna

Hestamenn verða nýkomnir heim af Landsmóti Hestamanna með fangið fullt að verðlaunum.  Þeir fara hópreið um götur bæjarins í fullum skrúða um hádegisbil á sunnudag.  Sjón er sögu ríkari.

 

Pallaball

Hinn eini sanni Páll Óskar Hjálmtýsson verður með Pallaball í íþróttahúsinu á Sauðárkróki á Landsmótinu. Íþróttahúsið skartar sínu fegursta og allt gert til að skapa frábæra stemmingu.  Þátttakendur á Landsmótinu fá verulegan afslátt af miðaverði á Pallaballið.

 

Ráðstefna

Samhliða Landsmótinu er ráðstefna með bæði innlendum og erlendum fyrirlesurum um málefni sem höfða til allra sem hafa áhuga á lýðheilsu. 

 

Skemmtikvöld

Gleðin verður við völd á laugardagskvöldinu á Landsmótinu á Sauðárkróki. Slegið verður upp veislu þar sem matur úr skagfirsku matarkistunni kitlar bragðlaukana, farið verður með gamanmál og síðan ætlar Geirmundur Valtýsson að sjá um að veislugestir komist í sannkallaða skagfirska sveiflu.

 

Vörusýning

Sérstök sölu- og vörusýning verður á Sauðárkróki samhliða Landsmótinu. Þar verða í boði ýmsar vörur sem tengjast íþróttum, útivist og allskonar hreyfingu.

 

Þrauta og leikjasvæði

50 metrar af ævintýri og skemmtun.  Þetta verða allir að prófa. Tilvalið fyrir börn á öllum aldri.