Landsmót UMFÍ fer fram dagana 12. - 15. júlí 2018 á Sauðárkróki í Skagafirði.

Á Sauðárkróki eru kjöraðstæður til þess að tryggja frábæra upplifun á Landsmótinu. Mótið fer fram á þéttum kjarna miðsvæðis í bænum og því er stutt í allt. 

Á Sauðárkróki er allt til reiðu fyrir gott mót, frábært íþróttahús, sundlaug og íþróttavöllur. Auk þess verða sett upp sérstök svæði í tengslum við mótið. 

Á tjaldsvæðinu verður lauflétt útilegustemmning á meðan mótinu stendur. Tjaldsvæðið er á Nöfunum fyrir ofan Landsmótssvæðið. Gestir mótsins sem gista á tjaldsvæðinu eða í miðbæ Sauðárkróks geta auðveldlega gengið um allt. Á svæðinu eru fjölmörg hótel og gistiheimili fyrir þá sem það kjósa. 

Verslun og þjónusta er til fyrirmyndar. Veistingastaðir eru nokkrir og þar er hægt að fá allt frá skyndibitum til veislumáltíðia. Einnig eru á staðnum kaffihús þar sem hægt er að setjast niður og fá sér ilmandi kaffi og meðlæti. Enginn ætti að fara svangur heim því á mótinu verða söluskálar þar sem seldur verður fjölbreyttur matur og drykkur. Aðgengi að verlsun er gott og þar má finna fjölbreytt úrval matvöru, t.d. ferskan fisk og kjöt, grænmeti og ávexti ásamt margvíslegri sérvöru. Heilbrigðisþjónustan í Skagafirði er góð og þar er gott aðgengi að læknum og hjúkrunarfólki, þótt við vonumst til þess að enginn þurfi að nýta sér hana. 

Finna má ítarlegri upplýsingar um Skagafjörð og þjónustu á svæðinu á visitskagafjordur.is