Fara á efnissvæði

Verkefni

Ánægjuvogin

Hvað er ánægjuvogin?

Ánægjuvogin er unnin af Rannsóknum og greiningu (R&g) fyrir UMFÍ og ÍSÍ. R&g hafa lagt spurningalista fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk frá árinu 1992 undir verkefnaheitinu Ungt fólk. UMFÍ og ÍSÍ hafa nýtt niðurstöður skýrslunnar frá 2012 til þess að fylgjast með þróun ánægju í íþróttum og íþróttaiðkun. Niðurstöður gefa svör um ánægju iðkenda með félagið, þjálfarann og aðstöðuna. Einnig tengsl íþróttaiðkunar við þætti eins og vímuefnaneyslu, námsárangur, andlega og líkamlega heilsu, svefn og neyslu orkudrykkja.

Skýrsla 2022

Árið 2022 var niðurstöðum Ánægjuvogarinnar skipt upp eftir heilbrigðisumdæmum landsins í stað hvers íþróttahéraðs. Með þeim hætti mátti bera niðurstöðurnar saman við lýðheilsuvísa Embættis landlæknis. Að auki fékk hvert félag sem er með fleiri en 15 iðkendur sérstakt blað með lykiltölum fyrir félagið. Í nokkrum tilvikum þar sem tilskilinn fjöldi náðist ekki voru útbúnar skýrslur fyrir sveitarfélagið.

Kynning á Ánægjuvoginni 2022

  • Þriðjudaginn 21. júní 2022 fór fram kynning í þjónustumiðstöð UMFÍ. Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu og kennari við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík, fór þar yfir helstu niðurstöður.

    Þar kom fram að andleg og líkamleg heilsa ungra iðkenda er betri hjá þeim sem stunda íþróttir en þeim sem gera það ekki. Iðkendum í skipulögðu íþróttastarfi í 9. og 10. bekk grunnskóla hefur fjölgað á árabilinu 2003–2022. Hlutfall þeirra sem sögðust nær aldrei stunda íþróttir fór úr 49% árin 2003 og 2006 í 37% árið 2010. Á síðasta ári sögðust 42% nemenda í þessum bekkjum aldrei stunda íþróttir.

    Þá kemur fram að hlutfall nemenda í 9. og 10. bekk sem stunda íþróttir fjórum sinnum í viku eða oftar hækkar stöðugt frá árinu 2003 til 2010. Nú segist um 41% nemenda á þessu aldursbili stunda íþróttir með íþróttafélagi fjórum sinnum í viku eða oftar. Hlutfall þeirra nemenda sem segjast stunda íþróttir með íþróttafélagi einu sinni til þrisvar sinnum í viku er komið í 17% nemenda.

     

    Í meðfylgjandi myndbandi er að sjá kynningu frá Margréti Lilju

    https://vimeo.com/manage/videos/764194825

  • Um helmingur barna sem koma frá heimilum þar sem eingöngu íslenska er töluð stundar æfingar með íþróttafélagi en öðru máli gegnir um nemendur af erlendum uppruna sem og nemendur sem skilgreina sig kynsegin. Þessir tveir hópar stunda síður íþróttir en aðrir.

    Dæmi um það er spurningin: Hve oft stundar þú íþróttir með íþróttafélagi? Greint eftir kynferði.

    Niðurstaðan er sú að 42% stúlkna stunda íþróttir með íþróttafélagi fjórum sinnum í viku eða oftar og 19% 1–3 sinnum í viku. Á sama tíma svöruðu 46% drengja því að þeir stunduðu íþróttir með félagi fjórum sinnum í viku eða oftar og 18% 1–3 sinnum í viku.

    Á hinn bóginn stundaði meirihluti nemenda sem skilgreinir sig kynsegin/annað ekki íþróttir með félagi, eða 66%. Einungis 16% stunda íþróttir með íþróttafélagi fjórum sinnum í viku eða oftar og 18% 1–3 sinnum í viku.

    Keimlík niðurstaða er í þeim svörum sem fengust þegar íþróttaiðkun var greind niður eftir því hvort íslenska var töluð á heimili viðkomandi, annað mál eða eingöngu annað. Færri ungmenni stunda íþróttir reglulega ef þau koma frá heimilum þar sem eingöngu annað tungumál er talað en íslenska.

  • Niðurstöður Ánægjuvogarinnar 2022 árétta mikilvægi þess að halda börnum í skipulögðu íþróttastarfi, hampa fyrirmyndum og gæta þess að íþróttir séu fyrir alla, því yfirgnæfandi meirihluti iðkenda er ánægður með íþróttafélagið sitt, þjálfarann sinn og æfingaaðstöðuna og upplifir gott félagslíf með liðinu.

    Til viðbótar hefur verið sýnt fram á að þeim börnum og ungmennum sem stunda íþróttir í skipulögðu starfi líður betur en hinum. Þau eru líka ólíklegri til að nota vímuefni, nikótín og orkudrykki.

    Af þeim sökum er mikilvægt að ná til þeirra sem ekki stunda skipulagt íþróttastarf.